11. júní 2007
Manstu gamla daga. Örfá sæti laus á tónleikana þriðjudaginn 12. júní
Sinfóníuhljómsveit Íslands endurtekur leikinn frá síðasta starfsári og flytur dagskrána Manstu gamla daga þriðjudaginn 12. júní næstkomandi. Misritað var í auglýsingum að tónleikarnir væru á fimmtudegi, og er hér með beðist velvirðingar á því. Líkt og nafnið gefur til kynna er hér að ræða um flutning klassískra íslenskra dægurlaga sem Hrafnkell Orri Egilsson hefur útsett fyrir hljómsveitina. Tónleikarnir á síðasta ári tókust einstaklega vel og allt hjálpaðist að við að gera þá ógleymanlega: Frábærar útsetningar dásamlegar kynningar Ragnheiðar Ástu og frammistaða söngkvennanna tveggja sem tóku salinn með trompi. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður enginn annar en Bernharður Wilkinson, sem er Færeyingum að góðu kunnur og er tíður gestur á Íslandi þar sem hann stjórnar reglulega tónleikum. Það voru þær Eivör Pálsdóttir og Ragnheiður Gröndal sem sungu á tónleikunum í fyrra, en nú er það það Hjördís Elín Lárusdóttir, eða Dísella eins og hún er kölluð, sem leysir Ragnheiði af hólmi í forföllum hennar. Síðar í vikunni heldur svo hópurinn allur til Færeyja og leikur sömu dagskrá á tvennum tónleikum í Norðurlandahúsinu og ku vera orðið uppselt á fyrri tónleikana sem verða 15. júní en ennþá eru lausir miðar á þá seinni sem verða degi síðar.