EN

15. júní 2007

Uppselt í sal á The Wall með Dúndurfréttum og Sinfóníuhljómsveitinni

Föstudaginn 29. júní næstkomandi mun Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt rokksveitinni Dúndurfréttum flytja eitt helst þrekvirki rokksögunnar, The Wall eftir Roger Waters og Pink Floyd í Laugardalshöllinni. Nú er uppselt í sal og einungis eftir sæti í stúku. Í vetur hefur tónlistarmaðurinn Haraldur Vignir Sveinbjörnsson legið yfir verkinu og útsett það fyrir sinfóníuhljómsveit. Aðspurður sagðist hann vera verkinu trúr enda ekki ástæða til þess að hrófla of mikið við því sem mörgum finnst nánast vera heilagt. Í verkinu sé auk þess að finna heilmikil sinfónísk element, til að mynda í réttarhaldskaflanum (The Trial) þar sem Sinfóníuhljómsveitin fær heldur betur að njóta sín. Rokkið verðu þó aðalsmerki tónleikanna og óhætt að segja að sá þáttur sé einnig í höndum fagmanna. Hljómsveitin Dúndurfréttir hefur áður flutt ýmsar perlur rokksögunnar á eftirminnilegum tónleikum í Borgarleikhúsinu og í Austurbæ við frábærar undirtektir. Gríðarlegur fjöldi fólks, tónlistarmanna, og ýmissa tæknimanna mun leggja hönd á plóginn og gera þetta sumarkvöld í Laugardalshöllinni ógleymanlegt fyrir áheyrendur. Auk Dúndurfrétta og Sinfóníuhljómsveitar Íslands mun Skólakór Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur koma fram á tónleikunum. The Wall kom fyrst út sem tvöföld hljómplata árið 1979 +++og vakti umsvifalaust heimsathygli. Platan er samhangandi verk, uppvaxtarsaga ráðvillts drengs eftirstríðsáranna á Englandi sem glímir við föðurmissi, ofverndandi móður og íhaldssamt skólakerfi sem gerir hvað það getur til þess að steypa alla í sama mót. Síðar hlotnast honum frami í tónlist en eiturlyfjanotkun, draugar fortíðar, sjálfsvorkunn og andlegir erfiðleikar verða til þess að hann lokar sig af, einangrar sig frá umhverfi sínu og byggir ímyndaðan vegg í kringum sig til þess að forðast erfiðar tilfinningar raunveruleikans. Pink Floyd fylgdu plötunni eftir með tónleikaferð þar sem öllu var tjaldað til og úr varð heilmikið sjónarspil. Þrátt fyrir gríðarlegt fjárhagslegt tap á þeirri tónleikferð hefur það varla komið að sök því platan átti eftir að seljast meira en nokkur önnur tvöfald plata hafði áður og hefur gert síðan. Árið 1999 hafði platan selst í yfir 30 milljónum eintaka og eitthvað hefur selst síðan! The Wall var í fimmtán vikur í efsta sæti bandaríska Billboard listans.