EN

28. september 2007

Opin æfing

Næstkomandi þriðjudag (2. október) býður Sinfóníuhljómsveit Íslands til opinnar æfingar í Háskólabíói frá kl. 11.30-12.30. Á æfingunni mun Rumon Gamba stýra verkum eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy, sem hljómsveitin mun hljóðrita fyrir Chandos-útgáfuna síðar í haust. Vincent d´Indy var eitt helsta tónskáld síðrómantíska tímans í Frakklandi. Hann lærði hjá meisturunum César Franck og Camille Saint-Saëns, en nú er hans helst minnst fyrir að hafa sjálfur verið tónsmíðakennari Eriks Satie. Tónverk hans nutu mikilla vinsælda á sinni tíð, enda eru þau einstaklega fögur og að mörgu leyti dæmigerð fyrir franska rómantík. Á næstu tveimur árum mun Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðrita tvo diska með verkum d´Indy fyrir Chandos-útgáfuna. Þess má einnig geta að nýjustu hljómdiskar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa fengið afbragðs dóma á erlendum vettvangi. Diskur SÍ með hljómsveitarverkum breska tónskáldsins Malcolm Williamson fékk til að mynda fjórar stjörnur af fimm mögulegum í BBC Music Magazine fyrr í þessum mánuði og fór gagnrýnandinn sérlega lofsamlegum orðum um leik sveitarinnar. Opna æfingin á þriðjudag er því kærkomið tækifæri fyrir heimamenn til að kynna sér vinnu SÍ við hljóðritanir, sem oft fer lítið fyrir hér á landi þótt diskarnir veki iðulega mikla athygli erlendis. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.