EN

2. október 2007

Sinfóníuhljómsveitin í bítlabænum

Í ár fagnar tónlistarfélag Reykjanesbæjar hálfrar aldar afmæli. Af því tilefni verður efnt til stórtónleika í íþróttahúsinu við Sunnubraut þar í bæ. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun þar leika ásamt Karlakór Keflavíkur, lúðrasveit tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Sigurði Flosasyni saxófónleikara og Davíð Ólafssyni söngvara. Efnisskráin er afar fjölbreytt og verk heimamanna áberandi, allt frá útsetningum á nokkrum frægustu dægurperlum bæjarins yfir í frumflutning á þætti úr saxófónkonsert Veigars Margeirssonar, sem getið hefur sér gott orð fyrir tónsmíðar fyrir sjónvarp og kvikmyndir í Hollywood. Auk þess verða flutt sígræn snilldarverk á borð við Bolero eftir Ravel og 1812 forleik Tsjajkovskíj.