EN

9. október 2007

Nýr íslenskur þjóðlagakonsert

Á gulum áskriftartónleikum fimmtudagskvöldið 18. október verður frumfluttur nýr saxófónkonsert eftir Veigar Margeirsson. Það eru ávallt tíðindi þegar nýr íslenskur einleikskonsert heyrist í fyrsta sinn, ekki síst þegar verkið er jafn einstakt í sinni röð og hinn nýi konsert Veigars. Verkið byggir á alkunnum íslenskum þjóðlögum, m.a. Sofðu unga ástin mín og Hættu að gráta hringaná, og einleikarinn, Sigurður Flosason, fær m.a. að spinna frjálsar hendingar út frá þjóðlögunum eins og hann hefur áður gert við frábæran orðstír. Veigar hefur starfað í Los Angeles um árabil og hefur samið tónlist við fjölda kvikmynda og auglýsinga, m.a. fyrir Da Vinci-lykilinn og Batman Begins, en þetta er í fyrsta sinn sem SÍ flytur verk eftir hann. Hljómsveitarstýra á tónleikunum er hin frábæra finnska Eva Ollikainen, og auk konsertsins leikur hljómsveitin Ófullgerðu sinfóníu Schuberts og 4. sinfóníu Nielsens.