EN

24. október 2007

Allir semma í háttinn á laugardaginn!

Fyrstu tónleikar í Tónsprotaröðinni verða á laugardaginn 27. október. Þeir bera yfirskriftina Náttfatagleði, enda verður göldruð fram sannkölluð næturstemming á tónleikunum. Flutt verða allskyns verk sem tengjast nóttinni; vögguvísur, nornadansar og draumatónlist, svo og tónlist sem lýsir ýmsu því sem fer á stjá þegar aðrir sofa. Meðal tónskálda sem koma við sögu eru Mozart, Berlioz, Gershwin og Prokofiev. Trúðurinn Barbara kynnir það sem fram fer eins og hún mun gera á öllum tónsprotatónleikum í vetur. Til að auka enn á næturstemminguna er tilvalið að koma í náttfötunum á tónleikana, og taka bangsann með, hann fær frítt inn! Það er ástæða til að minna á að tónleikarnir hefjast kl. 17 að þessu sinni og að Tónsprotatónleikar eru um klukkustund að lengd.