EN

30. október 2007

Heyrðu mig nú Stravinskíj!

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar á föstudagskvöld verða með óvenjulegasta móti. Þeir hefjast klukkan 21, standa í um klukkutíma og svo verður partí í anddyri Háskólabíós með hljómsveit, stjórnanda og plötusnúðnum DJ Þorbirni. Tónleikarnir eru í nýrri tónleikaröð sem kallast Heyrðu mig nú! og er ætlað að hrista aðeins upp í tónleikaforminu og þannig gera tónlistina aðgengilegri fyrir fólk sem ekki hefur kynnt sér hljómsveitina og verk hennar áður. Flutt verður Vorblót Stravinskíjs, eitthvert frægasta verk tónlistarsögunnar. Verkið vakti sem kunnugt er mikla hneykslun við frumflutninginn, enda verkið byltingarkennt og krassandi og hefur engu tapað af slagkrafti sínum. Stjórnandinn, Rumon Gamba, mun segja lítillega frá verkinu og kynna það með tóndæmum áður en það verður síðan flutt í heild sinni. Auk Vorblótsins verður Geysir eftir Jón Leifs fluttur, en þar beitir Jón öllum meðölum hljómsveitarinnar til að lýsa kynngikrafti goshversins í tónum. Aðgangseyrir á Heyrðu mig nú! er aðeins 1.000 krónur.