EN

7. nóvember 2007

Innblástur frá Jónasi og Roma-mönnum

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar fimmtudaginn 15 nóvember verður frumflutt verkið Stúlkan í turninum eftir Tryggva M. Baldvinsson. Hljómsveitin pantaði verkið hjá Tryggva í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar, en verkið byggir á samnefndri smásögu listaskáldsins góða. Það er löngu orðið tímabært að einn fremsti píanóleikari þjóðarinnar, Edda Erlendsdóttir, komi fram með hljómsveitinni. Úr því verður bætt á tónleikunum, því þar verður Edda og leikur píanókonsert í D-dúr eftir Joseph Haydn. Þetta er heillandi konsert og naut gríðarlegra vinsælda um alla Evrópu á sínum tíma. Eftir hressandi upphafskafla og yndisfagurt adagio líkur honum með sprellfjörugum rondo-kafla sem sækir innblástur sinn í tónlist sígauna. Þá verður á dagskránni fjórða sinfónía Schumanns, sem hann samdi 1841, á tímabili þegar allt lék í höndum hans eins og þetta glæsilega verk ber með sér. Stjórnandi á tónleikunum er Kurt Kopecky, sem er tónlistarunnendum hér að góðu kunnur, bæði við stjórnendapúlt Sinfóníuhljómsveitarinnar og eins í gryfjunni í Gamla Bíói sem tónlistarstjóri Íslensku óperunnar. Tónleikarnir eru í rauðu röðinni og hefjast á hefðbundnum tíma kl. 19.30. Miðasala í síma 5452500 eða hér.