EN

9. nóvember 2007

Kiri Te Kanawa og Garðar Cortes í desember

Sinfóníuhljómsveitin og aðalstyrktaraðili hennar, fjárfestingafélagið FL Group standa fyrir styrktartónleikum fyrir verkefnið Lífið kallar! föstudaginn 7. desember 2007í Háskólabíói. Þar koma fram söngstjörnurnar Dame Kiri Te Kanawa og Garðar Thór Cortes. Kiri Te Kanawa er einhver dáðasta söngkona heims og hefur sungið við öll helstu óperuhús veraldar. Hún hefur sungið inn á fjölmargar hljómplötur hjá EMI útgáfunni, hún söng við brúðkaup Díönu prinsessu og Karls bretaprins og hefur verið öðluð af bresku krúnunni. Kiri Te Kanawa hefur verið gestur á öllum helstu tónlistarhátíðum heims. Garðar Thór Cortes er ein bjartasta von Íslendinga á tónlistarsviðinu. Hann gaf út hljómplötu sína Cortes í Bretlandi í vor og fór hún beint í fyrsta sæti klassíska sölulistans og sat þar í þrjár vikur. Þessa dagana er verið að semja um útgáfu um allan heim og Garðar fer um heiminn þveran og endilangan til að koma fram á tónleikum. Þetta er í annað skipti sem Garðar og Kiri Te Kanawa syngja saman en þau sungu saman í haust á tónleikum sem voru liður í fjáröflun sjóðs sem er í nafni Kiri og styrkir ungt tónlistarfólk til náms. Lífið kallar! er samstarfsverkefni fjárfestingafélagsins FL Group og BUGL, barna- og unglingageðdeildar Landsspítalans.Verkefnið er ársgamalt og árangur framar vonum, en það gengur út á stuðning við bráðaþjónustu BUGL og miðar að því að styrkja börn og unglinga á aldrinum 12-18 ára sem hafa orðið fyrir áfalli og í kjölfarið misst lífslöngunina, til að móta nýja lífssögu, sögu um lífið sem kallar. FL Group hefur frá árinu 2006 verið aðal styrktaraðili verkefnisins og beinn fjárstuðningur félagsins er að minnsta kosti fimm milljónir króna á ári í fjögur ár. Allur ágóði tónleikanna rennur til Lífið kallar! Miðaverð er 8.900 kr. Smelltu hér til að kaupa miða.