EN

16. nóvember 2007

Á hvað vill framtíðarfólkið hlusta?

Málþing á vegum Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður haldið í Iðnó mánudaginn 19. nóvember klukkan 20.00. Tónlistarstofnanir um heim allan hafa haft áhyggjur af hversu lítil endurnýjunin er í tónleika – og óperuhöllum á meðal áhorfenda og hlustenda víða um veröld og menn spyrja: Hvar er unga fólkið? Hvar er allt unga fólkið sem fyllir tónlistarskólana? Hvar er allt unga fólkið sem lokið hefur menntun í tónlist? Hvar er kynslóðin sem ekki hefur fyllt árin 60? Hvað er til ráða? Hvað má verða til þess að unga fólkið fái að njóta allra þeirra frábæru tónleika sem í boði eru? Hefur hljóðheimurinn breyst? Hvað hefur gerst? Leitað verður svara við einhverjum þessara spurninga á málþingi á vegnum Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þar koma valinkunnir einstaklingar fram og velta jafnvel upp nýjum spurningum um óskir tónleikagesta framtíðarinnar. Á stokk stíga útvarpskonurnar knáu Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Berglind María Tómasdóttir, sem hafa verið með puttana á púlsi tónlistarlífs í landinu í viðtölum sínum við framtíðarfólkið og leikið tónlist þeirra í þáttum sínum, Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann hefur hin síðari ár uppfrætt hina ungu og upprennandi meðfram öðrum störfum sínum í þágu tónlistargyðjunnar, hið síunga tónskáld Atli Ingólfsson sem hefur af örlæti gefið af sjálfum sér með tónsmíðum sínum, en einnig lagt gott til málanna á sviði tónlistar með áhugaverðum athugasemdum. Síðast en ekki síst mun hinn ungi og ört vaxandi hljómsveitarstjóri og tónskáld, Daníel Bjarnason, greina frá niðurstöðum umræðuhóps sem hefur hefur á að skipa nokkrum af helstu tónlistarmönnum ungu kynslóðarinnar, þeim Ólöfu Arnalds, Maríu Huld Markan, Áka Ásgeirssyni og Stefáni Bernharðssyni. Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu geta gestir í sal stigið í pontu og tjáð hugsanir sínar og vangaveltur um þetta brýna málefni. Aðgangur er ókeypis og öllum heimil þátttaka.