EN

20. nóvember 2007

Ólíkindatól á fimmtudaginn

Á tónleikum hljómsveitarinnar á fimmtudaginn verður boðið upp á fjölbreytta efnisskrá, en verkin eiga það sameiginlegt að njóta mikilla vinsælda og vera alþekkt. Verkin tengjast öll persónum sem mætti kalla “ólíkindatól” því í þeim er lýst lygalaupum, prökkurum og handanheimsverum og öllum meðulum tónlistar og sinfóníuhljómsveitar beitt til þess. Tónlist Griegs við leikrit Ibsens um Pétur Gaut er einhver lífseigasta og ástsælasta leikritstónlist sem samin hefur verið, enda andagiftin ómæld. Allir þekkja Söng Sólveigar, morgunstemninguna og kaflann sem lýsir höll dofrans, svo nokkrir hlutar séu nefndir. Grieg setti saman tvær hljómsveitarsvítur með tónlist úr verkinu, en að þessu sinni gefst sjaldgæft tækifæri til að heyra tónlistina eins hún hljómaði við við frumflutninginn, samofin leiktexta Ibsens. Hljómsveitin hefur fengið Gunnar Eyjólfsson sér til fulltingis, en Pétur Gautur hefur verið nákomin honum lengi ferilsins, eða allt frá því hann brá sér í hlutverk tækifærissinnans og ævintýramannsins í uppfærslu Þjóðleikhússins 1962. Gunnar mun fylgja áhorfendum inn í vegferð Péturs, rekja söguþráðinn í stuttu máli og flytja brot úr verkinu. Ein efnilegasta söngkona okkar, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, tekur þátt í flutningnum og bregður sér bæði í hlutverk hinnr trygglyndu Sólveigar sem bíður heimkomu Péturs ævina á enda og hinnar arabísku Anítru. Till Eulenspiegel hét maður og var uppi í Þýskalandi á 14. öld. Um hann hafa gengið og ganga enn fjöldi þjóðsagna sem lýsa honum sem hinum mesta grallara, uppátækjasömum og hrekkjóttum með afbrigðum. Í þessar sögur sótti Richard Strauss sér efnivið í frábært hljómsveitarverk þar sem kímnigáfa og uppfinningagleði tónskáldsins kallast fullkomlega á við æringjaháttinn sem einkennir þjóðsögurnar. Öllu dekkra er yfir snilldarverki rússans Modest Mussorgsíj, Nótt á nornastóli, þar sem hann lýsir nornafundi á fjallstindi sem nær hámarki þegar heiðursgesturinn, skrattinn sjálfur, mætir til fundar. Mussorgskíj var með eindæmum hæfileikaríkt tónskáld og þótti vinum hans og samferðamönnum oft nóg um og reyndu að “betrumbæta verkin”, en nútíminn kann vel að meta frumleika hans og frumkraft. Stjórnandi á tónleikunum er Petri Sakari, sem er einn af áhrifamestu samstarfsmönnum hljómsveitarinnar, en hann var aðalstjórnandi hennar 1988-1993 og 1996-1998. Smelltu hér til að kaupa miða.