26. nóvember 2007
Stórviðburður - Thomas Adés á Íslandi!
Á fimmtudagskvöldið syngja kórarnir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og flytja ásamt henni Sálmasinfóníu Stravinsíjs undir stjórn enska tónskáldsins og hljómsveitarstjórans Thomas Adès. Verkið er eitt af höfuðverkum 20. aldarinnar og gerir miklar kröfur til söngvaranna, en kórarnir hafa áður tekið þátt í flutningi þess með Sinfóníuhljómsveitinni, árið 1984. Samstarf kóranna og hljómsveitarinnar er langt og farsælt og nær allt aftur til ársins 1975, þegar stúlknaraddir skólakórsins fluttu lokaþáttinn í Nocturnes eftir Claude Debussy á tónleikum í Háskólabíói. Síðan hafa kórarnir flutt eftirfarandi verk með hljómsveitinni: Let thy hand be strengthened eftir G.F. Handel (1979), Dafnis og Klói eftir Maurice Ravel (1981 og aftur 1986), Sálmasinfóníu Stravinskíjs (1984), Ljóðasinfóníu (1991) og Maríuvísur (1992) eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, 9. sinfóníu Beethovens (1994), Cecilia, vergine romana eftir Arvo Pärt (2003), Magnificat og Erschallet, ihr Lieder eftir J.S. Bach (2004), Sálumessu og önnur verk Mozarts fyrir kór og hljómsveit, og kafla úr Sálumessu Josephs Eyblers (2006).