EN

26. nóvember 2007

Adés á Íslandi

Einn af stórviðburðum tónleikaársins verður í Háskólabíói á fimmtudagskvöld þegar Thomas Adès stýrir hljómsveitinni og Hamrahlíðarkórunum í flutningi á eigin tónlist og verkum Stravinskíjs. Hér er hægt að lesa efnisskrá tónleikanna, sem að vanda er stútfull af aðgengilegum fróðleik um listamennina og verk þeirra. Þar eru einnig krækjur á aðrar síður með enn meiri upplýsingum til gagns og gamans, svo og krækjur á þær upptökur sem við mælum með af umræddum verkum. Thomas Adès er þrátt fyrir ungan aldur talinn í hópi merkustu tónsmiða samtímans, og hefur notið fáheyrðrar velgengni allt frá því hann lauk námi snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Tónsmíðar hans hafa aflað honum margvíslegra verðlauna og viðurkenninga og margar af helstu hljómsveitum heimsins hafa pantað hjá honum verk. Adès er nú staðartónskáld Carnegie Hall-tónleikahallarinnar í New York. Auk tónsmíðanna er hann virtur píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Tvö verk Adès verða á efnisskránni. Fiðlukonsertinn Concentric Paths er saminn fyrir Berliner Festspiele og Fílharmóníuhljómsveitina í Los Angeles árið 2005. Einn athyglisverðasti ungi fiðluleikari Þjóðverja, Carolin Widmann, fer með einleikshlutverkið. Asyla er fyrsta stórvirki Adès, frumflutt árið 1997 og þykir eitt af lykilverkum síðasta áratugar. Hljómsveitin er gríðarstór og mikið um óvenjuleg hljóðfæri, ekki síst í slagverkshópnum þar sem gefur að heyra kúabjöllur, vatnsgong (málmgjall sem dýft er ofan í vatn, sem hefur þau áhrif að tónninn sígur um hálftón) og poka fullan af hnífapörum, svo nokkuð sé nefnt. Einnig leika mikilvæg hlutverk kontrabassaklarínett, bassaóbó og píanó sem stillt er kvarttóni of lágt. Það segir meira en mörg orð um áhrifamátt þessa verks að Sir Simon Rattle kaus að flytja það á upphafstónleikum sínum sem aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Berlín. Auk verka Adès verða á dagskránni tvö verk eftir Ígor Stravinskíj; Scherzo Fantastique og hinn stórbrotna Sálmasinfónía, sem sækir innblástur sinn og texta í Davíðssálma og er löngu viðurkennd sem eitt af meistaraverkum 20. aldarinnar. Í Sálmasinfóníunni bætist hljómsveitinni liðsauki úr Hamrahlíð, en Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórinn taka þátt í flutningnum. Um þessar mundir fagna kórarnir því að 40 ár eru liðin frá stofnun Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð. Kórarnir hafa fyrir löngu skapað sér nafn sem burðarásar í íslensku menningarlífi, hafa gefið út fjölda hljómplatna og geisladiska og ferðast um víða veröld og borið út hróður íslensks tónlistarlífs. Fjöldi tónskálda, innlendra og erlendra hafa samið verk fyrir kórana og tileinkað þau ýmist þeim eða stjórnanda þeirra, Þorgerði Ingólfsdóttur, sem hefur stýrt þeim og mótað starf þeirra frá upphafi. Samstarf Hamrahlíðarkóranna og Sinfóníuhljómsveitar Íslands nær aftur til ársins 1975 og óskar hljómsveitin kórunum og Þorgerði hjartanlega til hamingju með tímamótin og hin óteljandi unnu afrek. Smelltu hér til að kaupa miða á tónleikana.