EN

27. nóvember 2007

Tónleikakynning á fimmtudaginn

Eins og undanfarin ár býður Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar upp á "súpufundi", tónleikakynningar á undan nokkrum völdum tónleikum í vetur. Það fer vel á því að hefja þennan leik á tónleikunum á fimmtudaginn, þegar hinn frumlegi og hæfileikaríki Thomas Adés stýrir flutningi á tveimur verka sinna auk tveggja verka eftir meistara Stravinskíj. Á súpufundinum mun Ingibjörg Eyþórsdóttir tónlistarfræðingur leiða áhugasama tónleikagesti inn í furðuheim Thomasar Adés, með sérstakri áherslu á stórvirkið Asyla. Einnig mun hún fara orðum um verk Stravinskíjs sem flutt verða. Súpufundurinn verður að vanda á Hótel Sögu, og eins og nafnið bendir til verður súpa á boðstólum. Dagskráin hefst kl. 18.00 og kostar 1.200 kr. Tónlistarkynningar Vinafélagsins eru öllum opnar.