EN

10. desember 2007

Hafliði staðartónskáld

Hafliði Hallgrímsson hefur verið ráðinn sem staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands til næstu þriggja ára. Hafliði mun starfa náið með hljómsveitinni á tímabilinu og mun samstarfið ná til flestra sviða starfsemi hennar. Hafliði Hallgrímsson er meðal fremstu tónskálda Íslands og er tónverkaskrá hans ein sú viðamesta og glæsilegasta sem íslenskt tónskáld getur státað af. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs sem hann hlaut fyrir fiðlukonsertinn Poemi árið 1986. Hafliði hefur samið tónlist fyrir hljómsveitir og einleikara í fremstu röð, og má nefna norska sellóleikarann Truls Mörk og skoska slagverkssnillinginn Evelyn Glennie. Stærstu verk Hafliða, óratórían Passía og óperan Die Wält der Zwischenfälle hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda helstu tónlistartímarita og dagblaða. Hafliði mun semja verk sérstaklega fyrir hljómsveitina, auk þess sem eldri verk hans verða tekin til flutnings. Hann mun taka þátt í fræðslustarfi hljómsveitarinnar um leið og hljómsveitin mun leggja áherslu á að kynna verk hans.