EN

11. desember 2007

Uppselt á jólatónleikana

Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar njóta mikilla vinsælda og eru fastur liður í jólahaldi margra fjölskyldna. Það er uppselt á báða tónleikana að þessu sinni og biðlisti eftir miðum. Efnisskráin er líka spennandi, Hnotubrjótur Tsjaíkovskíjs og fleiri hátíðaperlur verða fluttar, ungir dansarar úr Listdansskóla Íslands sýna listir sínar og trúðurinn Barbara hjálpar börnunum inn í töfraheim tónlistarinnar á sinn einstæða hátt. Á undan tónleikunum munu stúlkur úr skólakór Kársness syngja jólalög í anddyri Háskólabíós svo það er um að gera að mæta tímanlega. Lestu efnisskrána hér. Eftir áramót eru síðan tvennir spennandi tónleikar í fjölskyldutónleikaröðinni Tónsprotanum. í lok mars verða tónleikar tileinkaðir Maxímús Músíkús, sögupersónu í nýrri barnabók sem Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari hafa samið og segir frá kynnum Maxímúsar af sinfóníuhljómsveit og tónlistinni. Og í apríl verður svo kvikmyndatónlistin á dagskrá, flutt verður tónlist úr myndum á borð við Harry Potter, Star Wars og Simpsons-þáttunum svo nokkuð sé nefnt. Þá er rétt að minna á gjafakort Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem er tilvalin jólagjöf fyrir tónlistarunnendur á öllum aldri.