EN

4. janúar 2008

Stjörnur framtíðarinnar stíga fram

Næstu tónleikar hljómsveitarinnar eru svo sannarlega spennandi fyrir þá sem langar að skyggnast inn í framtíðina í tónlistarlífinu. Þar munu fjórir fræknir tónlistarnemar spreyta sig sem einleikarar með hljómsveitinni í fyrsta sinn. Fjórmenningarnir urðu hlutskörpust í forkeppni sem hljómsveitin og Listaháskóli Íslands stóðu fyrir og því mikils að vænta af þeim. Þrír þeirra stunda nám við tónlistardeild LHÍ, en einn kemur alla leið frá Tónlistarháskólanum í München. Hákon Bjarnason mun leika píanókonsert eftir Sergej Prokofíev, Theresa Bokany flytur fiðlukonsert eftir Henryk Wieniawski, Arngunnur Árnadóttir leikur á klarinett Première Rhapsodie Claude Debussy og Joaquin Páll Palomares flytur fiðlukonsert Jeans Sibeliusar. Stjórnandi á tónleikunum er Kristofer Wahlander. Það er spennandi að fylgjast með tónlistarfólki stíga sín fyrstu skref og tónleikar ungu einleikaranna hafa ávalt verið eftirminnilegur viðburður, jafnt fyrir þátttakendur og áheyrendur.