EN

28. janúar 2008

Tvær íslenskar Sinfóníur frumfluttar

Það gerist ekki á hverjum degi að tvær íslenskar sinfóníur heyrist í fyrsta sinn. Á tónleikunum 7. febrúar n.k verða frumfluttar Sinfónía nr. 3 eftir Atla Heimi Sveinsson og Sinfónía nr. 4 eftir John Speight. Einsöngvarar í sinfóníu Atla verða Gunnar Guðbjörnsson og Ágúst Ólafsson, og „bakraddir“ syngja þau Hulda Björk Garðarsdóttir, Sesselja Kristjánsdóttir og Hrólfur Sæmundsson. Textarnir í sinfóníu Atla Heimis eru eftir William Heinesen, Nikos Kazantzakis og Gunnar Gunnarsson. Önnur sinfónía Atla Heimis vakti óskipta hrifningu áheyrenda þegar hún var frumflutt 3. júní 2006 og óhætt að fullyrða að sú þriðja mun ekki síður gleðja eyru og ímyndunarafl. Tónleikarnir eru liður í hinni árlegu hátíð Myrkum músíkdögum. Enginn sem lætur sér annt um íslenska nýsköpun í tónlist má láta sig vanta á þessa spennandi tónleika.