11. febrúar 2008
4000 börn á sinfóníutónleikum
Um fjögur þúsund börn munu sækja hljómsveitina heim á næstu dögum, en þá verða daglegir skólatónleikar í Háskólabíói í samstarfi við verkefnið "Tónlist fyrir alla". Efnisskráin verður fjölskrúðug. M.a. verða flutt verk eftir Copland, Brahms, og Bernstein, og Sigurður Flosason blæs í saxófóninn í kafla úr konsert Veigars Margeirssonar sem byggir á íslenskum þjóðlögum. Efalaust verður samt hápunkturinn þegar hljómsveitin sleppir fram af sér beislinu í trylltum mambo-dansi eftir Leonard Bernstein. Hákon Leifsson stýrir hljómsveitinni og Halldóra Geirharðsdóttir kynnir tónlistina.