19. febrúar 2008
Sellósnillingur á klassísku kvöldi
Þrír helstu meistarar klassíska tímabils tónlistarsögunnar ráða ríkjum á næstu tónleikum hljómsveitarinnar. Framlag Mozarts verður forleikurinn að Töfraflautunni, frá Beethoven kemur Sveitasinfónían og Haydn leggur til sellókonsert. Stjórnandinn kemur frá Noregi og heitir Eyvind Aadland. Einleikarinn er ein skærasta stjarna sellóheimsins í dag, hinn ungi Daniel Müller-Schott. Orðspor hans hefur farið stöðugt vaxandi allt frá því að fiðlusnillingurinn Anne-Sopie Mutter heillaðist af leik hans á unglingsárum. Koma hans er tvímælalaust einn af hápunktum tónleikaársins og því um að gera að tryggja sér strax einn af hinum örfáu óseldu miðum. Hér getur þú lesið efnisskrá tónleikanna, sem er full af upplýsingum um listamennina, tónskáldin og verkin, auk krækja á enn frekara efni. Súpufundur gerir gott kvöld enn betra. Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur tónleikakynningar, svokallaða "súpufundi" á undan völdum tónleikum í vetur. Einn slíkur verður á undan þessum tónleikum. Þar mun Ingibjörg Eyþórsdóttir tónlistarfræðingur fjalla um tónskáldin og verkin meðan gestir gæða sér á veitingunum. Súpufundirnir eru haldnir á Hótel Sögu og hefjast kl. 18.00. Aðgangseyrir er 1.200 kr. og allir eru velkomnir.