22. febrúar 2008
Rómantískir öfgar
Tveir af tónlistarjöfrum nítjándu aldarinnar leggja til verkin á næstu tónleikum hljómsveitarinnar. Og ólíkir um margt. Franz Liszt er einn mesti píanósnillingur sögunnar og verk hans eru gjarnan ævintýralegar flugeldasýningar sem krefjast ómennskrar færni af flytjendum. Svo er um píanókonsert nr. 2 sem er hér á dagskrá. Verkið sveiflast milli blússandi spilagleði og blíðrar ljóðrænu og óhætt að spá því að allir geti notið þess ferðalags. "Dómkirkjur í tónum" er algeng lýsing á sinfóníum Antons Bruckners og á það vel við þriðju sinfóníuna, sem stundum er kennd við Wagner enda tileinkaði Bruckner starfsbróður sínum og átrúnaðargoði verkið. Mikilfenglegt verk sem lætur engan ósnortinn. Ungur pólverji, Ewa Kupiec, glímir við konsert Liszts, en hún þykir einn fremsti píanóleikari Póllands þó ung sé að árum. Um túlkun hennar á verkinu sagði gagnrýnandi í St. Louis í Bandaríkjunum nýlega að hún hefði allt til brunns að bera fyrir tónlist Liszts: "Frábæra tækni, kraft, tilfinningahita og ljóðrænu sem gerði flutninginn hreinlega fullkominn". Stjórnandi er eistneski hljómsveitarstjórinn Arvo Volmer.