28. febrúar 2008
Gamalt og nýtt
Fyrstu tónleikar marsmánaðar verða helgaðir hinum svokallaða "SeinniVínarskóla". Þar er átt við byltingarmenn á sviði tónsmíða sem störfuðu í Vínarborg snemma á síðustu öld. Forystumenn stefnunnar voru þrír, þeir Arnold Schönberg og tveir nemenda hans, Anton Webern og Alban Berg, og það eru verk úr smiðju þeirra þremenninga sem flutt verða á tónleikunum. En þó tónsmíðar þeirra væru nýstárlegar þá lögðu þeir einnig rækt við fortíðina. Á tónleikunum verða fluttar tvær hljómsveitarumritanir á eldri verkum. Anton Webern bjó þátt úr Tónafórn J.S. Bach í hljómsveitarbúning sem löngu er orðinn sígildur á eigin forsendum og sama má segja um umritun Schönbergs á frábærum píanókvartett eftir Brahms. En hápunktur tónleikanna verður án efa túlkun Sigrúnar Eðvaldsdóttur á fiðlukonsert Albans Berg. Þar blandar Berg saman á sérlega frumlegan og áhrifaríkan hátt tónsmíðaaðferð þeirra félaganna og vísunum í eldri tónlist svo úr verður magnþrungið verk sem stundum er kallað "Sálumessa fyrir fiðlu". Smellið hér til að lesa efnisskrá tónleikanna. Súpufundur gerir gott kvöld enn betra. Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur tónleikakynningar, svokallaða "súpufundi" á undan völdum tónleikum í vetur. Einn slíkur verður á undan þessum tónleikum. Þar mun Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri SÍ fjalla um tónskáldin og verkin meðan gestir gæða sér á veitingunum. Súpufundirnir eru haldnir á Hótel Sögu og hefjast kl. 18.00. Aðgangseyrir er 1.200 kr. og allir eru velkomnir.