6. mars 2008
Maxímús mætir á svæðið!
Ástæða er til að minna á næstu tónleika í fjölskyldutónleikaröðinni Tónsprotinn. þar stígur á stokk sjálfur Maxímús Músíkús, forvitin lítil mús sem villist inn í tónlistarhús og kynnist hljómsveit að störfum. Eftir talsverðar hremmingar á æfingu heillast músin af því sem fyrir eyru ber og ákveður að hlýða á tónleika sveitarinnar. Maxímús er sköpunarverk Hallfríðar Ólafsdóttur flautuleikara og Þórarins Más Baldurssonar víóluleikara. Hallfríður hefur ritað sögu músarinnar og Þórarinn myndskreytir. Bókin kemur út á næstu vikum en að sjálfsögðu þarf að fagna Maxímúsi með myndarlegum tónleikum og það verður gert laugardaginn 29. mars kl. 14. Þar verður mikið um dýrðir. Fiðlusveit frá Akranesi spilar í anddyrinu fyrir tónleikana, Maxi sjálfur verður að sjálfsögðu á vappi, sem og trúðurinn Barbara sem er ómissandi leiðsögukona á fjölskyldutónleikum. Á tónleikunum sjálfum tekur Valur Freyr Einarsson síðan við og segir sögu Maxa með hjálp mynda úr bókinni og hljóðmynd hljómsveitarinnar. Á efnisskránni eru sívinsæl verk á borð við Bolero eftir Ravel, Á Sprengisandi í útsetningu Páls P. Pálssonar og fyrsti kafli fimmtu sinfóníu Beethovens. Allir krakkar ættu að drífa sig og foreldra sína af stað og fylgjast með fyrstu skrefum Maxímúss þann 29. mars. Miðasala er í fullum gangi.