EN

10. mars 2008

Sálumessa á páskatónleikum

Eitt magnaðasta verk rómantíska tímans fyrir kór og hljómsveit verður flutt á Páskatónleikum hljómsveitarinnar fimmtudaginn 13. mars. Hér er um að ræða Þýsku sálumessuna eftir Johannes Brahms. Verkið er einstakt í sinni röð þar sem Brahms notaði ekki hefðbundna sálumessutextann heldur raðaði saman ritningarstöðum sem honum þóttu til þess fallnir að gefa innblástur og huggun. „Þetta er sálumessa fyrir þá sem eftir lifa,“ sagði Brahms um verkið sem tryggði honum frægð um alla Evrópu. Hljómsveitin flytur Þýsku sálumessuna á páskatónleikum sínum fimmtudagskvöldið 13. mars ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu og einsöngvurum. Þetta verða fagrir og heillandi tónleikar sem enginn má missa af. Auk sálumessunnar verður flutt hið magnaða verk Minnisvarði um Lidice eftir tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu, sem hann samdi til minningar um ódæðisverk Nasista sem jöfnuðu þorpið Lidice við jörðu, myrtu karlmenn og fluttu konurnar í þrælabúðir, í hefndarskyni fyrir árás andspyrnumanna á Reynhard Heydrich. Söngsveitin Fílharmónía hefur lengi verið í fremstu röð íslenskra kóra og hefur frá upphafi lagt áherslu á flutning viðamikilla sígildra kórverka með hljómsveit. Samstarf Sinfóníuhljómsveitarinnar og Söngsveitarinnar nær aftur til upphafsára kórsins og hefur gefið af sér fjölmarga eftirminnilega tónleika. Stjórnandi kórsins er nú Magnús Ragnarsson. Þýski stjórnandinnn Johannes Fritzsch heldur um tónsprotann á tónleikunum, en margir íslenskir tónlistarunnendur muna eflaust eftir mögnuðum tónleikum á síðasta starfsári þar sem hann stjórnaði flutningi á 3. þætti Parsifal eftir Wagner. Hér getur þú lesið efnisskrá tónleikanna.