EN

11. mars 2008

Eilífðartónar stríðsfangans

Eitt af stórvirkjum kammertónlistarinnar verður flutt á Kristalstónleikum í Þjóðmenningarhúsinu á laugardaginn kl. 17. Franska tónskáldið Olivier Messiaen samdi Kvartett fyrir endalok tímans meðan hann sat í stríðsfangabúðum í síðari heimsstyrjöldinni og frumflutningurinn fór fram undir berum himni að viðstöddum fimm þúsund samföngum tónlistarmannanna. Tuttugu árum síðar sagði Messiaen: „Aldrei hefur verið hlustað á tónlist mína með svo mikilli athygli og skilningi sem þá“. Hljóðfæraskipanin er óvenjuleg, enda stjórnaðist hún af því hvaða hljóðfæraleikarar og hljóðfæri voru tiltæk við þessar erfiðu aðstæður. Kvartettinn er saminn fyrir píanó, klarinett, fiðlu og selló. Innblásturinn sótti Messiaen í Opinberunarbókina og bjargföst trúarsannfæring tónskáldsins gegnsýrir allt verkið og víða bregður fyrir einu helsta einkenni Messiaens, fuglasöng, en í tónlist hans eru sterk og náin tengs milli fugla og trúarlegrar upphafningar. Verkið er í átta hlutum og skiptast á kröftugir kaflar þar sem öll hljóðfærin koma við sögu og fagrir hugleiðslukenndir einleikskaflar þar sem klarinettið, fiðlan og sellóið syngja. Kristallinn er kammertónleikaröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Að þessu sinni leika þau Rúnar Óskarsson (klarinett), Zbigniew Dubik (fiðla), Hrafnkell Orri Egilsson (selló) og Ástríður Alda Sigurðardóttir (píanó). Tónleikarnir taka tæpa klukkustund og eru því upplögð leið til að ljúka góðum laugardegi, eða sem upptaktur að ánægulegu laugardagskvöldi, nema hvort tveggja væri. Hér má lesa efnisskrá tónleikanna, sem m.a. inniheldur skýringar tónskáldsins við hvern kafla verksins. Athugið að hægt er að lesa fyrri efnisskrár starfsársins með því að fara í flipann "Sinfóníuhljómsveitin" og smella á "Efnisskrár 2007-2008".