14. mars 2008
Maxímús Músíkús í heimsókn
Næstu tónleikar í Tónsprotaröðinni verða engum líkir. Þar verður fagnað útkomu bókarinnar Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarinn Má Baldursson. Bókin segir frá ævintýrum lítillar músar sem villist inn á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit og heillast af þeirri tónaveröld sem þar ríkir. Á tónleikunum mun Valur Freyr Einarsson leikari lesa söguna og hljómsveitin búa til viðeigandi leikhljóð og leika síðan þau tónverk sem koma við sögu í bókinni, þeirra á meðal Bolero eftir Ravel og fyrsta þáttinn í fimmtu sinfóníu Beethovens. Trúðurinn Barbara lítur líka við, og heyrst hefur að Maxímús sjálfur muni kíkja í heimsókn. Á undan tónleikunum mun hin rómaða Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness leika nokkur lög í anddyri Háskólabíós. Tónleikarnir verða laugardaginn 29. mars og hefjast kl. 14. Hér er hægt að kaupa miða, og hér má fræðast meira um Maxímús, bókina og tónlistina.