28. mars 2008
Einstakur gestur
Á næstu tónleikum tekur hljómsveitin á móti einum mesta tónhugsuði samtímans, bandaríska píanóleikaranum Robert Levin. Hann leikur píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven á tónleikum fimmtudaginn 3. apríl undir stjórn austurrísk-úrúgvæska hljómsveitarstjórans Carlos Kalmar. Að auki eru á efnisskránni forleikurinn Ótelló eftir Antonin Dvorák og mergjað tónaljóð Richard Strauss um Don Kíkóta, þar sem Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari bregður sér í hlutverk riddarans sjónumhrygga. Spinnur eigin einleikshluta Róbert Levin er einn helsti sérfræðingur nútímans í tónlist klassíska tímans og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir túlkun á á verkum Mozarts og Beethovens. Hann hefur komið fram með helstu hljómsveitum heimsins og unnið með stjórnendum á borð við Bernard Haitink, Sir Neville Marriner, Sir John Eliot Gardiner. Seiji Ozawa og Sir Simon Rattle. Hljóðritanir hans hafa m.a. komið út hjá Deutsche Grammophon, Decca og Philips. Eitt af því sem greinir Levin frá flestum píanistum er að hann leikur sínar eigin “kadensur”, einleikskafla sem koma fyrir í konsertverkum og gefa hljóðfæraleikurum færi á að sýna hvað í þeim býr. Flestir láta sér nægja að læra og spila eldri kadensur en Levin býr til sínar eigin, að sjálfsögðu í stíl verkanna og ritunartíma þeirra, nokkuð sem er á fárra færi. Robert Levin hefur einnig samið einleikskadensur fyrir fiðlukonserta Mozarts og fullgert tvö af frægustu verkum hans, sálumessuna og c-moll messuna, en eins og kunnugt er náði Mozart hvorugt þeirra að klára. Píanóleikur Roberts Levin þykir á sama tíma innblásinn og úthugsaður og Íslandsheimsókn hans er viðburður sem enginn unnandi klassískrar tónlistar ætti að láta fram hjá sér fara. Auk fimmtudagstónleikanna mun Robert Levin einnig koma fram á “Heyrðu mig nú” tónleikum á föstudagskvöldið, og halda fyrirlestur á vegum Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Sölvhóli, sal tónlistardeildar Listaháskóla Íslands föstudaginn 4. apríl. kl 12.20. Tónleikakynning Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur tónleikakynningar, svokallaða "súpufundi" á undan völdum tónleikum í vetur. Einn slíkur verður á undan þessum tónleikum. Þar mun Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri SÍ fjalla um tónlistina sem flutt verður á tónleikunum með sérstaka áherslu á tónaljóð Richard Strauss um Don Kíkóta. Fundurinn verður í Sunnusal Hótels Sögu og hefst kl. 18.00. Aðgangseyrir er 1.200 kr. og allir eru velkomnir.