4. apríl 2008
        
      
      
      
     
    
  
    Hverju stal Beethoven frá Mozart?
    
  
  
  
    
    
    Robert Levin, hinn magnaði píanisti og tónhugsuður heillaði tónleikagesti í gærkvöldi upp úr skónum með leiftrandi flutningi á þriðja píanókonsert Beethovens. Þeir sem misstu af því fá annað tækifæri í kvöld en þá flytur Levin konsertinn aftur á Heyrðu mig nú! tónleikum, sem eru sérstaklega ætlaðir þeim sem eru að uppgötva klassíska tónlist. Vitaskuld eru tónleikarnir samt öllum opnir.    Á undan konsertinum mun Levin segja frá honum og útlista með tóndæmum ýmislegt sem hjálpar til við skilning og upplifun á verkinu. Einkum ætlar hann að tala um hverju Beethoven stal frá Mozart, en hann er einn helsti sérfræðingur samtímans í  verkum þessara meistara.    Síðan mun Levin spinna fantasíu byggða á stefjum sem áhorfendur leggja til, en hann er einstakur í sinni röð fyrir hæfileika sína til að impróvísera í stíl klassísku meistaranna.    Tónleikarnir hefjast kl. 21 og verða ríflega klukkustundarlangir. Á eftir gefst síðan tækifæri til að hitta tónlistarmennina í anddyri Háskólabíós og njóta léttra veitinga. Og miðaverðið er aðeins 1.000 kr.