EN

4. apríl 2008

Hver var Louis Spohr?

Síðustu Kristaltónleikar vetrarins verða helgaðir tónskáldi sem naut á sínum tíma svipaðrar hylli og Beethoven, en hefur síðan fallið að nokkru leyti í gleymsku. Engu að síður er tónlist Louis Spohr svo sannarlega hlustunarinnar virði, og því tilvalið að líta við í Þjóðmenningarhúsinu á morgun, laugardaginn 5. apríl, kl. 17 og hlýða á fjölbreytt dæmi úr viðamiklu verkasafni hans. Þetta verða fjölbreyttir tónleikar þar sem ýmis stíleinkenni hins merka tónskálds fá að njóta sín, en Spohr var þekktur fyrir að tileinka sér hratt strauma og stefnur í tónlist sinni og sér þess vitaskuld stað í verkum hans. Leikinn verður kafli úr Tríói fyrir hörpu, fiðlu og selló, en Spohr skrifaði mikið af verkum þar sem harpa er í áberandi hlutverki, enda eiginkona hans hörpuleikari í fremstu röð. Þá verða flutt þrjú sönglög, og bætist þar sópransöngkonan Ingibjörg Guðjónsdóttir í hóp hljóðfæraleikaranna. Að lokum verður síðan leikinn oktett fyrir fiðlu, tvær víólur, selló, klarínettu, tvö horn og kontrabassa. Hljóðfæraleikarar á tónleikunum eru Katie Buckley hörpuleikari, Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari, sellóleikarinn Margrét Árnadóttir, Einar Jóhannesson á klarinett, víóluleikararnir Þórunn Ósk Marinósdóttir og Þórarinn Már Baldursson, hornleikarnir Jósef Ognibene og Emil Friðfinnsson og Richard Korn kontrabassaleikari. Þetta er tækifærið til að kynnast þessum forvitnilega tónsmið í glæsilegum húsakynnum Þjóðmenningarhússins þar sem andi aldanna svífur yfir vötnum.