EN

7. apríl 2008

Vladimir Ashkenazy stýrir einvalaliði í meistaraverki Beethovens.

Það er boðið til mikillar veislu í Háskólabíói fimmtudagskvöldið 10. apríl næstkomandi, og þarf engan að undra að uppselt sé á tónleikana. Vladimir Ashkenazy er óumdeilanlega frægastur íslenskra ríkisborgara í klassíska tónlistarheiminum. Hvarvetna á byggðu bóli bera menn óblandna virðingu fyrir umfangsmiklu starfi hans og djúphugulu viðhorfi til tónlistarinnar. Í ríflega hálfa öld hefur hann verið í hópi fremstu hljóðfæraleikara heims og orðsír hans á hljómsveitarstjórapallinum vaxið stöðugt undanfarna áratugi og hann stjórnað flestum frægustu hljómsveitum heims. Árið 2002 þáði hann boð Sinfóníuhljómsveitar Íslands um að gerast heiðursstjórnandi hennar og hefur síðan stjórnað tónleikum á hverju starfsári sem teljast einatt einn hápunkta tónleikaársins. Að þessu sinni stjórnar Vladimir Ashkenazy flutningi hljómsveitarinnar, Íslenska óperukórsins og einvalaliðs einsöngvara á einu af meistaraverkum tónbókmenntanna, Missa Solemnis eftir Ludwig Van Beethoven. Verkið er mikið að vöxtum og gerir miklar kröfur til flytjenda; hljómsveitar, einsöngvara og ekki síst kórs. Tónlistin er víðfeðm og einkennist af sterkum andstæðum þar sem nýstárleg og byltingarkennd tónhugsun Beethovens kallast á við tónlist barokks og endurreisnar. Útkoman er um margt einstakt verk í sköpunarverki Beethovens og þar með tónlistarsögu Vesturlanda. Einvalalið flytjenda kemur til liðs við hljómsveitina til að skila Missa Solemnis til áhorfenda. Íslenski óperukórinn undir stjórn Garðars Cortes hefur skapað sér sterkan sess í íslensku tónlistarlífi og er eftirsóttur til flutnings ýmissa verkefna, enda hlotið mikið lof gagnrýnenda og áheyrenda á undanförnum árum. Einsöngvararnir eru líka í fremstu röð. Sópransöngkonan Joan Rodgers er ein ástsælasta söngkona Bretlandseyja, tenórinn Mark Tucker hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir túlkun tónlistar barokk- og klassíska tímabilsins og íslenskir unnendur sígildrar tónlistar þekkja allir hæfileika Sesselju Kristjánsdóttur og Ólafs Kjartans Sigurðarsonar. Smelltu hér til að lesa efnisskrá tónleikanna.