EN

17. apríl 2008

Bíófjör á fjölskyldutónleikum

Laugardaginn 19. apríl verður svo sannarlega stuð hjá Sinfóníuhljómsveitinni þegar lög og stef úr frægum og frábærum bíómyndum verða flutt. Tónleikarnir eru í Tónsprotaröðinni, fjölskyldutónleikaröð Sinfóníuhljómsveitarinnar, hefjast klukkan 14 og eru um klukkustundarlangir. Meðal þess sem verður spilað er hin sígilda tónlist Johns Williams úr Stjörnustríði (Star Wars) sem dregur upp ævintýralegar myndir af hetjum í himingeimnum, geislasverðum og baráttu góðs og ills. Tónlist Johns Williams á líka sinn þátt í að gera Harry Potter-myndirnar að þeirri upplifun sem þær eru svo svítan Töfraveröld Harry Potter verður á dagskrá. Og þó Mission: Impossible sé hreint engin barnamynd þá er kynningarstef Lalo Schifrin bara of flott til að sleppa því. Söngleikjadívan Kim Criswell mætir líka og syngur nokkur lög úr söngva- og fjölskyldumyndum á borð við Mary Poppins og Galdrakarlinum í Oz. Að vanda mun trúðurinn Barbara sjá til þess að áhorfendur njóti tónlistarinnar til hins ítrasta með sínum einstöku kynningum og útlistunum á innihaldi verkanna. Bíófjör í Háskólabíói er tilvalinn fyrir alla fjölskylduna til að skreppa á á laugardaginn og njóta tónlistarveislu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hér getur þú lesið efnisskrá tónleikanna. Tryggðu þér miða hér!