EN

21. apríl 2008

Mahler og Schumann hylla Pál

Hljómsveitin fagnar áttræðisafmæli Páls P. Pálssonar með glæsitónleikum fimmtudagskvöldið 8. maí nk. Á efnisskránni eru tvö sívinsæl verk úr hinum ótæmandi brunni Mið-Evrópskrar tónlistar, þaðan sem Páll hefur sótt sinn innblástur sem hljóðfæraleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld. Fimmta sinfónía Mahlers er eitt glæsilegasta hljómsveitarverk sem fyrirfinnst og einkennist af áhrifamiklum andstæðum, allt frá dramatískum inngangstöktunum til hins unaðslega adagietto-kafla sem margir þekkja úr kvikmyndinni Dauðinn í Feneyjum. Þá hefur sellókonsert Roberts Schumann löngum heillað, og ekki spillir að hér leikur einleik einn eftirtektarverðasti ungi sellóleikari heimsins, hinn þýsk-japanski Danjulo Ishizaka. Að sjálfsögðu á Páll svo sjálfur verk á efnisskránni, glæsilegt Heiðursgjall. Hljómsveitarstjóri er aðalstjórnandi SÍ, Rumon Gamba. Hér er hægt að tryggja sér miða. Og hér er hægt að lesa um verkin og listamennina Súpufundur gerir gott kvöld enn betra Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar heldur tónleikakynningar, svokallaða "súpufundi" á undan völdum tónleikum í vetur. Síðasti súpufundur vetrarins verður á undan þessum tónleikum. Þar mun Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri SÍ fjalla um fimmtu sinfóníu Mahlers meðan gestir gæða sér á veitingunum. Súpufundirnir eru haldnir á Hótel Sögu og hefjast kl. 18.00. Aðgangseyrir er 1.200 kr. og allir eru velkomnir.