EN

21. apríl 2008

Maxi snýr aftur!

Hér geturðu kynnt þér efnisskrána. Tryggðu þér miða hér. Nú geta þeir fjölmörgu sem misstu af frábærum flutningi á ævintýrum Maxímús Músíkús tekið gleði sína, því þann 17. maí nk. gefst annað tækifæri. Laugardaginn 29. mars síðastliðinn sátu tæplega þúsund börn og foreldrar þeirra agndofa í Háskólabíói og fylgdust með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vali Frey Einarssyni leikara flytja ævintýrið um músina tónelsku Maxímús Músíkús. Þeir fjölmörgu sem misstu af þessum viðburði fá nú annað tækifæri, því laugardaginn 17. maí nk. verða tónleikarnir endurteknir. Tónleikarnir vöktu mikil og góð viðbrögð áheyrenda, allt niður í eins og hálfs árs aldur, og upp úr. “Við viljum meira svona!” skrifaði Jónas Sen, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, og verður honum og öðrum tónlistarunnendum núna að ósk sinni. Tónleikarnir byggja á nýútkominni bók eftir tvo liðsmenn hljómsveitarinnar, þau Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara sem skrifaði söguna og Þórarinn Má Baldursson víóluleikara sem teiknar myndirnar. Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina heitir bókin og trónir efst á metsölulistum bókabúðanna þessa dagana. Í bókinni segir frá ævintýrum lítillar músar, Maxímús Músíkús, sem dettur heldur betur í lukkupottinn þegar hann rambar inn í tónlistarhús þar sem sinfóníuhljómsveit æfir sig fyrir tónleika. Maxi þekkir tónlist mannfólksins úr frægðarsögum langafa síns en nú fær hann loksins að kynnast henni af eigin raun. Í þessari fjörugu sögu er lesandinn leiddur inn í töfraheima tónlistarinnar í orði og tónum. Hljóðfærin eru kynnt eitt af öðru eftir því sem ævintýrum Maxa vindur fram og lesendur læra að þekkja hljóðin sem þau gefa frá sér. Á tónleikunum mun Valur Freyr flytja söguna og hljómsveitin búa til viðeigandi leikhljóð og leika síðan þau tónverk sem koma við sögu í bókinni, þeirra á meðal Bolero eftir Ravel, fyrsta þáttinn í fimmtu sinfóníu Beethovens og Á Sprengisandi í frábærri útsetningu Páls P. Pálssonar. Myndirnar úr bókinni leika og stórt hlutverk. Stjórnandi er Bernharður Wilkinson. Trúðurinn Barbara lítur líka við, telja má víst að Maxímús sjálfur muni kíkja í heimsókn. Tónleikarnir verða laugardaginn 17. maí og hefjast kl. 14. Á undan tónleikunum leikur Léttsveit Tónlistarskólans á Seltjarnarnesi undir stjórn Kára Einarssonar nokkur lög í anddyrinu, svo það er um að gera að mæta tímanlega. Bókin verður líka til sölu.