EN

9. maí 2008

Swingle Singers á Íslandi!

Áhugamenn um fjölradda söng verða að gera sér ferð í Háskólabíó á fimmtudaginn (15. maí nk.). Þá hefja Swingle Singers upp raust sína og flytja efnisskrá sem spannar allt frá Bach til Bítlana með viðkomu hjá Mozart, Beethoven og Berio, svo nokkrir séu nefndir. Swingle Singers hópinn þarf vart að kynna fyrir tónlistaráhugamönnum. Hann var stofnaður 1962 og sló í gegn með plötunni Bach's Greatest Hits, þar sem þau flytja verk meistarans í snjöllum og frumlegum kórútgáfum af stakri snilld. Stofnandinn, Ward Swingle, hefur endurnýjað söngkrafta sína reglulega og er sönghópurinn nú í fantaformi. Hér má sjá og heyra Tyrkneskt Rondó Mozarts í flutningi hópsins sem dæmi um list hans, og hér er það bítlalagið Drive My Car. Á tónleikunum mun hópurinn bæði syngja einn síns liðs og leika listir sínar með Sinfóníuhljómsveitinni undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. Hér er hægt að kaupa miða á þessa sérstöku og spennandi tónleika.