EN

16. maí 2008

Básúnuguðir

Það er alltaf gaman að sjá og heyra hljóðfæraleikara leika þannig listir á hljóðfæri sín að fyrirfram hefði maður talið þær ómögulegar. Sænski básúnumeistarinn Christian Lindberg hefur áður sótt Ísland heim og skilið eftir sig salarfylli af agndofa gestum. Nú mætir hann hinsvegar í hlutverki tónskálds og stjórnanda en hefur í för með sér annað básúnuofurmenni, bandaríkjamanninn Charlie Vernon, sem tónlistarblaðamenn í Chicago hafa hyllt sem "básúnuguð". Á tónleikunum næstkomandi fimmtudag leikur Vernon einleik í konsert sem Lindberg samdi sérstaklega með hæfileika hans í huga og nefnist Chick 'a' Bone Chechout, og er innblásinn af Chicagoborg eins og hún birtist í ljóðum Carls Sandburg. Stemmingin við frumflutninginn minnti gagnrýnendur einna helst á rokktónleika, áheyrendur ruku á fætur sem einn maður og hrópuðu og kölluðu. "Villt, tryllt, melódísk, virtúósísk tilfinningarík og hrærandi tónsmíð" skrifaði einn gagnrýnandinn, og bætti því við að líklega væri enginn básúnuleikari annar þess umkominn að flytja verkið, þvílíkar væru kröfurnar. Auk konsertsins verður á dagskrá hin fagra fyrsta sinfónía Tsjajkovskíjs, sem hefur undirtitilinn "Dagdraumar að vetri" og Indri eftir Svíann Jan Sandström. Smelltu hér til að kaupa miða á básúnuveislu vetrarins.