EN

10. júní 2008

Tuttugu hornleikarar teikna Alpana

Áhugamenn um óviðjafnanlega tónlist Richard Strauss, svo og þeir sem hafa dálæti á fögrum hljómi hornsins verða að mæta á lokatónleika starfsársins í Háskólabíó föstudagskvöldið 20. júní nk. Á dagskrá eru þrjú verk þessa meistara hljómsveitartónlistarinnar, þar af tvö afar fáheyrð. Es-dúr hornakonsertinn er ekki á færi nema algerra virtúósa og Króatinn Radovan Vlatkovic er tvímælalaust í þeirra hópi. Og í Alpasinfóníunni hljóma hvorki færri né fleiri en tuttugu horn, og eiga sinn þátt í að skapa einhverja mögnuðustu náttúrustemmingu sem um getur í tónum. Ævintýri Ugluspegils fylgja svo með í þessum glæsta Strauss-pakka. Stjórnandi er ungur og upprennandi svíi, Stefan Solyom. Semsagt, mikilfenglegar náttúrulýsingar, einleiksverk fyrir virtúósa og litríkir grallaraspóar. Aldeilis ágætur endir á viðburðaríku tónleikaári.