EN

14. ágúst 2008

Vadim Repin á upphafstónleikunum

Smelltu hér til að kaupa miða. Vadim Repin, einn fremsti fiðluleikari heims, leikur fiðlukonsert Tsjajkovskíjs á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 4. september nk. Repin hefur átt glæsilegan feril. Hann hóf tónlistarnám í Síberíu og vann til gullverðlauna í sinni fyrstu alþjóðlegu keppni aðeins 11 ára gamall. Hann var yngsti sigurvegari í sögu Queen Elizabeth-keppninnar í Brüssel aðeins 18 ára gamall árið 1989. Repin hefur komið fram á tónleikum með öllum helstu hljómsveitum heims, og lék m.a. einleik með Berlínarfílharmóníunni og Sir Simon Rattle á hinum frægu Evróputónleikum hljómsveitarinnar í Sankti Pétursborg nú í ár. Repin er á samningi hjá Deutsche Grammophon og hafa hljómdiskar hans fengið frábæra dóma gagnrýnenda um allan heim. Þetta er í fyrsta sinn sem Repin leikur á Íslandi. Koma Repins er því mikill fengur fyrir íslenska tónlistarunnendur og óhætt að fullyrða að upphafstónleikarnir verða einn af hápunktum komandi tónleikaárs. Auk fiðlukonsertsins verður á efnisskránni forleikur Tsjajkovsíjs að ballettinum Rómeó og Júlíu og sinfónía nr. 2 eftir Frakkann Vincent D'Indy. Stjórnandi er aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Rumon Gamba. Hér má sjá Repin leika listir sínar og ræða um lífið og listina. Hér má svo lesa efnisskrá tónleikanna, þar sem finna má ýmsan fróðleik um verkin höfunda þeirra og flytjendur.