EN

5. september 2008

Repin sló í gegn!

Óhætt er að segja að rússneski fiðlusnillingurinn Vadim Repin hafi heillað tónleikagesti upp úr skónum á upphafstónleikum hljómsveitarinnar. Repin túlkaði fiðlukonsert landa síns Tsjajkovsíjs af stakri snilld, og ekki dró úr hrifningu salarins þegar hann hóf að leika aukalag - sannkallaða tækni-flugeldasýningu úr smiðju sjálfs Paganinis. Fyrir þá sem ekki komust á tónleikana, þá má hér sjá og heyra Repin leika þetta sama aukalag. Þess má svo geta að tónleikarnir verða til umræðu í Lostafulla Listræningjanum á Rás 1 á laugardaginn kl. 15.25. Framúrskarandi fiðluleikarar verða áberandi í vetur. Ari Þór Vilhjálmsson leikur einleik í Poemi eftir staðartónskáld hljómsveitarinnar, Hafliða Hallgrímsson 26. september. Þá tryllir Rachel Barton Pine gesti grænu raðarinnar og Tónsprotans með sígaunasveiflu 9. og 10. október. Þá er komið að Sigrúnu Eðvaldsdóttur sem spilar fiðlukonsert Sibeliusar 16. október. Sif Tulinius fer síðan með einleikshlutverkið í Fylgjum Þorkels Sigurbjörnssonar 27. nóvember. Eftir áramót heldur fiðluveislan áfram þann 29. janúar með Íslandsfrumflutningi Helgu Þóru Björgvinsdóttur á blóðheitum konsert tékkans Bohuslav Martinu. 19. febrúar er það Leila Josefowicz og sjálf "drottning fiðlukonsertanna" eftir Beethoven. Fiðluveislunni líkur síðan með öðrum konsert Prokofievs. Hann er á dagskrá 12. mars og Elfa Rún Kristinsdóttir mundar bogann.