EN

17. september 2008

Edda I tilnefnd til verðlauna!

EDDA I: Sköpun heimsins, fyrsti hluti Eddu-óratóríu Jóns Leifs, er tilnefndur til Gramophone-verðlauna sem besti diskur ársins í flokki kórverka. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt tónverk er tilnefnt til verðlaunanna, sem eru þau eru virtustu á sviði klassískrar útgáfu og oft kölluð Óskarsverðlaun klassískrar tónlistar. Jón samdi Eddu I á árunum 1935-39 og voru kaflar þess fluttir 1952 og 1982, en verkið heyrðist ekki í heild sinni fyrr en í október 2006. Þá voru flytjendur Sinfóníuhljómsveit Íslands, Schola cantorum, og einsöngvararnir Gunnar Guðbjörnsson og Bjarni Thor Kristinsson. Stjórnandi var Hermann Bäumer. Í kjölfarið var verkið hljóðritað af sænska útgáfufyrirtækinu BIS sem hefur í meira en áratug staðið að því að hljóðrita öll verk Jóns. Útgáfa Eddu I hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og gagnrýnendur hafa hlaðið flutninginn lofi. Gagnrýnandi Gramophone kallaði útgáfuna "einn af stórviðburðum ársins í hljómdiskabransanum," og Classical Repertoire sagði íslensku flytjendurna "framúrskarandi og þjóna verkinu glæsilega." Meðal annarra flytjenda sem tilnefndir eru til Gramophone-verðlaunanna í ár má nefna stórstjörnur á borð við Ceciliu Bartoli, Jonas Kaufmann og Leif Ove Andsnes. Í kórflokknum eru tilnefndir tveir aðrir hljómdiskar, mótettur Poulencs með kórnum Polyphony, og Sköpunin eftir Haydn undir stjórn Pauls McCreesh, en hann mun einmitt stjórna því sama verki á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í apríl á næsta ári. Eitt verka Jóns Leifs, Þrjú óhlutræn málverk, verður flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í vetur, föstudaginn 26. september næstkomandi, en sama dag verður tilkynnt um niðurstöðu Gramophone-verðlaunanna. Stefnt er að því að EDDA II, Líf guðanna, verði frumflutt í nýju tónlistarhúsi á starfsárinu 2010-11.