29. september 2008
Gamelan hvað?
Í heyrðu mig nú – tónleikaröðinni er hefðbundið tónleikaform brotið upp. Stuttir tónleikar þar sem tónlistin er kynnt á undan flutningi og boðið í eftirpartý í anddyri Háskólabíós á eftir. Tilvalið fyrir forvitna tónlistarunnendur. Miðaverð aðeins 1.000 krónur. Fyrstu tónleikarnir í röðinni verða núna á föstudaginn (3. október) og hafa yfirskriftina Gamelan. Þar verða flutt verk sem eiga það sameiginlegt að nýta áhrif úr indónesískri gamelan-tónlist. Kanadamaðurinn Colin McPhee heillaðist svo af seiðmagni þessarar sérstöku slagverkstónlistar að hann flutti til Balí og bjó þar í áratug á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Áhrifin á tónlist hans eru augljós, ekki síst í hinu dáleiðslukennda Tabuh-Tabuhan. Nico Muhly kemur úr allt annarri átt að sambræðslu austurs og vesturs. Hann horfir á hvernig framandi menning og landslag birtist í einföldun dægurmenningarinnar og speglar það í verkinu Wish You were Here á litskrúðugan og frumlegan hátt. Muhly þykir einhver "heitasti" tónskmiðurinn í dag og hefur unnið jöfnum höndum með jöfrum hins sígilda heims á borð við Philip Glass, og snjöllustu listamönnum dægurheimsins á borð við Anthony Hegarty, Björk og upptökumeistaranum Valgeiri Sigurðssyni. Vonir standa til að Nico Muhly verði gestur tónleikanna, og munu hann og hljómsveitarstjórinn James Gaffigan kynna verkin áður en talið verður í. Píanóleikararnir Roland Pöntinen og Love Derwinger leika í verki McPhees. Smelltu hér til að tryggja þér sæti á töfrateppinu.