5. nóvember 2008
Víkingur leikur Bartók með Sinfóníuhjómsveitinni
Víkingur Heiðar Ólafsson leikur einleik í píanókonserti nr. 3 eftir Béla Bartók á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudagskvöldið 5. desember kl. 19.30. Auk þess hljóma á tónleikunum forleikur nr. 3 að Leónóru og sinfónía nr. 8 eftir Ludwig van Beethoven. Upphaflega áttu tónleikarnir að vera styrktartónleikar á vegum Stoða, en vegna breyttra aðstæðna þurfti að breyta efnisskrá og flytjendum á síðustu stundu. Vonast er til þess að einsöngvararnir Inessa Galante og Juha Uusitalo komi fram með hljómsveitinni á næsta eða þar næsta starfsári. Í mars sl. sigraði Víkingur Heiðar í einleikarakeppni píanónemenda við Juilliard-tónlistarháskólann þaðan sem hann lauk meistaraprófi fyrir skemmstu. Í kjölfarið lék hann píanókonsert Bartóks í Avery Fisher Hall í New York, sem er heimili Fílharmóníuhljómsveitar borgarinnar, við frábærar undirtektir. Víkingur sagði í tilefni af sigrinum: "Það er frábært fyrir mig að fá svona stórt tækifæri rétt áður en ég klára skólann." Nú gefst íslenskum tónleikagestum í fyrsta sinn færi á að heyra Víking flytja verðlaunakonsertinn hér á landi. Stjórnandi á tónleikunum 5. desember er pólski hljómsveitarstjórinn Michal Dworzynski, sem er aðstoðarstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitar Lundúna og hefur getið sér afar gott orð að undanförnu fyrir túlkun sína. Sjá nánar um konsertakeppnina í Juilliard: http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/02/14/vikingur_heidar_sigradi_i_einleikarakeppni_i_juilli/