Ungir einleikarar á svið 15. janúar
Þrír ungir tónlistarmenn munu stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands fimmtudaginn 15. janúar kl. 19.30. Þau eru sigurvegarar úr einleikarakeppni sem Sinfóníuhljómsveitin og Listaháskóli Íslands standa fyrir ár hvert. Tveir þeirra stunda nám við tónlistardeild Listaháskólans en einn við Nýja tónlistarskólann. Þetta eru Bjarni Frímann Bjarnason víóluleikari, Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzósópran. Á efnisskránni er víólukonsert eftir Béla Bartók, Fiðlukonsert eftir Johannes Brahms og aríur og sönglög eftir Giuseppe Verdi, Camille Saint-Saëns, Pjotr Tsjajkovskíj og Joseph Canteloube. Stjórnandi á tónleikunum er Bernharður Wilkinson. Það er stór stund fyrir ungan listamann að stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og spennan sem myndast magnar upplifunina fyrir áheyrendur, hljómsveit og einleikara. Udanfarin ár hefur myndast ótrúlega góð stemning þegar eldmóður og spilagleði unga fólksins hrífur áheyrendur. Þetta eru tónleikar sem áhugmenn um framtíð íslenskrar tónlistar láta sig ekki vanta á.
- Eldri frétt
- Næsta frétt