14. janúar 2009
Trommur og dans 22. janúar
Næstu tónleikar í rauðu röðinni verða með spennandi ævintýrablæ. Þar verða flutt tvö frábær ballettverk 20. aldarinnar. Petrúska eftir Igor Stravinskíj er eitt dáðasta verk hans fyrr og síðar, um sorgmæddu sirkusbrúðuna sem verður ástfanginn af fagurri ballerínu. Dádýrasvíta Francis Poulenc er einnig sprellfjörug og skemmtileg, og til að kóróna allt verður leikinn í fyrsta sinn á Íslandi konsertinn Crossings fyrir tvo slagverksleikara eftir Áskel Másson. Slagverkssnillingarnir Colin Currie og Pedro Carneiro eru meðal þeirra fremstu á sínu sviði á heimsvísu, og það er SÍ einstök ánægja að bjóða þá velkomna á sviðið í Háskólabíói. Á undan tónleikunum stendur Vinafélag SÍ fyrir súpufundi á Hótel Sögu þar sem Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur fjallar um verkin. Kynningin hefst kl. 18 og eru allir velkomnir.