16. janúar 2009
Kristallinn í Þjóðmenningarhúsi 24. janúar
Laugardaginn 24. janúar heldur SÍ kammertónleika í Þjóðmenningarhúsi kl. 17. Tónleikarnir eru hluti af Kristalnum sem er tónleikaröð helguð sjaldheyrðum gullmolum stofutónlistarinnar. Hljóðfæraleikarar eru Hildigunnur Halldórsdóttir, Júlíana Elín Kjartansdóttir, Guðrún Þórarinsdóttir, Sigurgeir Agnarsson og Hávarður Tryggvason. Á efnisskránni eru Strengjakvartett nr. 1 „Kreutzersónatan“ eftir Leoš Janácek og Strengjakvintett í Gdúr op. 77 eftir Antonín Dvořák. Kreutzer-sónatan er viðamesta fiðlusónata Beethovens, en hún gegnir einnig lykilhlutverki í smásögu Tolstoys með sama nafni. Strengjakvintett Dvořák er eitt hans hugljúfustu kammerverka. Dvořák var sjálfur lágfiðluleikari og hafði yndi af kammertónlist. Það skortir ekkert upp á þroskann og öryggið í kvintettinum sem Dvořák samdi 32 ára gamall, og greinilegt að hér er meistari á ferð. Miði á tónleikana kostar 1700 kr.