30. janúar 2009
Frumflutningur á Myrkum músíkdögum
Það er ekki á hverjum degi sem nýr íslenskur píanókonsert er frumfluttur. Að þessu leyti má telja tónleika SÍ á Myrkum músíkdögum 2009 stórviðburð í íslensku tónlistarlífi, en þá mun píanósnillingurinn Víkingur Heiðar Ólafsson frumflytja píanókonsert eftir Daníel Bjarnason, sem mun einnig þreyta frumraun sína með hljómsveitinni. Víking þarf ekki að kynna fyrir unnendum klassískrar tónlistar, og Daníel hefur getið sér gott orð víða um lönd fyrir hljómsveitarstjórn og tónsmíðar, og hlaut m.a. 2. verðlaun á Alþjóðlega tónskáldaþinginu 2008. Auk þess verður gullfallegur klarínettukonsert Jóns Ásgeirssonar fluttur í tilefni áttræðisafmælis tónskáldsins, og er það Einar Jóhannesson sem leikur einleik. Þá verða flutt verkin Ríma eftir Þorkel Sigurbjörnsson, og nýtt verk Hauks Tómassonar, Dialogo, sem hann samdi fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Stafangri. Kaupa miða