3. febrúar 2009
Messiaen, Turangalila 5. febrúar
Stærstu tónleikar starfsársins hjá SÍ eru tvímælalaust flutningurinn á hinni mögnuðu Turangalila-sinfóníu eftir Olivier Messiaen, sem hefði orðið hundrað ára í desember sl. Afmæli hans hefur verið fagnað um víða veröld, enda fá tónskáld 20. aldar sem sköpuðu jafn einstæðan og heillandi heim í verkum sínum. Í tónlist Messiaens renna saman áhrif úr ýmsum áttum: fuglakvak, munkasöngur, indverskir rytmar og kaþólsk guðfræði eiga sinn stað í þessari óviðjafnanlegu tónlist. Þessi magnaða sinfónía er skrifuð fyrir hljómsveit og tvo einleikara, og í þetta sinn leika með SÍ þau Steven Osborne, einn fremsti píanisti Bretlands um þessar mundir og Cynthia Millar. Hún leikur á Ondes martenot, óvenjulegt rafmagnshljóðfæri sem hefur himneskan hljóm og sem Messiaen notaði oft í verkum sínum. Á tónleikunum verður einnig frumfluttur flautukonsertinn Flutter eftir Þuríði Jónsdóttur, en hann er saminn sérstaklega í tilefni aldarafmælis Messiaen fyrir tilstuðlan RÚV. Einleikari er Mario Caroli, sem hefur getið sér frábært orð fyrir flutning sinn á nútímatónlist. A.T.H. tónleikarnir sem voru á dagskrá föstudaginn 6. febrúar falla niður. Kaupa miða :: Efnisskrá Vinafélagskynning verður fyrir tónleikana kl. 18 í Sunnusal á Hótel Sögu. Ingibjörg Eyþórsdóttir kynnir verkin. Verð með súpu kr. 1200. Allir eru velkomnir.