7. febrúar 2009
Frumflutningur 12. febrúar
Það er ekki á hverjum degi sem ný íslensk verk eru frumflutt. Að þessu leyti má telja tónleika SÍ á Myrkum músíkdögum 2009 stórviðburð í íslensku tónlistarlífi. Á tónleikunum verða frumflutt tvö ný íslensk verk; Klarínettukonsert eftir Jón Ásgeirsson og píanókonsert eftir Daníel Bjarnason, þá verður verkið Dialogo eftir Hauk Tómasson flutt í fyrsta sinn á Íslandi. Píanósnillingurinn Víkingur Heiðar Ólafsson mun frumflytja píanókonsert eftir Daníel Bjarnason, sem mun einnig þreyta frumraun sína með hljómsveitinni. Víking þarf ekki að kynna fyrir unnendum klassískrar tónlistar, og Daníel hefur getið sér gott orð víða um lönd fyrir hljómsveitarstjórn og tónsmíðar, og hlaut m.a. 2. verðlaun á Alþjóðlega tónskáldaþinginu 2008. Auk þess verður frumfluttur gullfallegur klarínettukonsert Jóns Ásgeirssonar í tilefni áttræðisafmælis tónskáldsins, og er það Einar Jóhannesson sem leikur einleik. Þá verða flutt verkin Ríma eftir Þorkel Sigurbjörnsson, og nýtt verk Hauks Tómassonar, Dialogo, sem hann samdi fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Stafangri. Kaupa miða | Efnisskrá Frímiðar fyrir atvinnulausa Sinfóníuhljómsveit Íslands býður atvinnulausum á tónleika sveitarinnar. Hljómsveitin vill leggja sitt af mörkum á þessum tímum og gera sem flestum kleift að koma og hlusta á tónleika hennar. Við munum taka frá 30 til 100 miða á hverja tónleika starfsársins fyrir þetta verkefni. Við biðjum áhugasama vinsamlega að senda póst á sinfonia@sinfonia.is Látið koma fram nafn og kennitölu og og ósk um hvaða tónleika þið viljið fara á. Einnig er hægt að hafa samband í síma 545-2500 eða koma við í miðasölunni í Háskólabíói. Vinsamlega pantið miðann a.m.k þremur dögum fyrir tónleika. Við bjóðum einn miða á alla almenna tónleika en tvo miða á Tónsprotann sem eru fjölskyldutónleikar okkar. Athugið að sækja þarf miða daginn fyrir tónleikadag.