EN

9. febrúar 2009

Á blað með fremstu hljómsveitum heims

Það var Sinfóníuhljómsveitin í Chicago sem hreppti hnossið fyrir hljóðritun sína á 4. sinfóníu Sjostakovitsj undir stjórn Bernard Haitink þegar Grammy verðlaunin voru afhent í nótt. Meðal annarra sem hlutu verðlaun í klassíska flokknum var fiðluleikarinn Hilary Hahn, sellóleikarinn Yo-Yo Ma, og Fílharmóníuhljómsveit Berlínar undir stjórn Sir Simon Rattle. Pacifica-kvartettinn hlaut verðlaunin fyrir besta kammermúsíkleikurinn. Sigurbjörn Bernharðsson, fiðluleikari, er félagi í kvartettnum. Verðlaunin voru veitt fyrir plötu með verkum eftir Elliott Carter. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri SÍ, er engu að síður ánægður með árangur Sinfóníuhljómsveitarinnar Íslands. „Það að við skulum komast á blað með fremstu hljómsveitum og listamönnum heims er enn ein sönnun þess að Sinfóníuhljómsveit Íslands nýtur aðdáunar um allan heim fyrir vandaða og innlifaða spilamennsku. Með þessari tilnefningu erum við komin í úrvalsflokk hljómsveita í heiminum, og þar ætlum við okkur að sjálfsögðu að vera áfram. Það er heldur engin skömm að lúta í lægra haldi fyrir Sinfóníuhljómsveitinni í Chicago, því hún er á heimavelli þarna og hefur hlotið yfir sextíu Grammyverðlaun um dagana, fleiri en nokkur önnur hljómsveit.“