EN

13. febrúar 2009

Drottning fiðlukonsertana 19. febrúar

Leila Josefowicz er svo sannarlega ein af fiðlustjörnum nútímans. Hún vakti fyrst verulega athygli sextán ára gömul þegar hún kom í fyrsta sinn fram í Carnegie Hall og skrifaði undir plötusamning við Philips Classics. Hún hefur leikið með öllum helstu sinfóníuhljómsveitum heims í meira en áratug og löngu orðið ljóst að tónlistargáfur hennar eru einstakar. Fiðlukonsert Beethovens hefur verið nefndur „drottning fiðlukonsertanna.“ Hann er tignarlegur, ljóðrænn og syngjandi, og gerir gífurlega kröfu um þroska og næmni þess sem mundar einleikshljóðfærið. Allt frá þungum hamarshöggunum í upphafi og yfir í hressilegan sveitadans lokaþáttarins er konsertinn ein innblásnasta smíði Beethovens og ávallt fagnaðarefni þegar fiðluleikari í heimsklassa tekur þátt í flutningi hans. Kaupa miða | Efnisskrá Frímiðar fyrir atvinnulausa Sinfóníuhljómsveit Íslands býður atvinnulausum á tónleika sveitarinnar. Hljómsveitin vill leggja sitt af mörkum á þessum tímum og gera sem flestum kleift að koma og hlusta á tónleika hennar. Við munum taka frá 30 til 100 miða á hverja tónleika starfsársins fyrir þetta verkefni. Við biðjum áhugasama vinsamlega að senda póst á sinfonia@sinfonia.is Látið koma fram nafn og kennitölu og og ósk um hvaða tónleika þið viljið fara á. Einnig er hægt að hafa samband í síma 545-2500 eða koma við í miðasölunni í Háskólabíói. Vinsamlega pantið miðann a.m.k þremur dögum fyrir tónleika. Við bjóðum einn miða á alla almenna tónleika en tvo miða á Tónsprotann sem eru fjölskyldutónleikar okkar. Athugið að sækja þarf miða daginn fyrir tónleikadag.