3. apríl 2009
Rússnesk veisla -tvennir tónleikar í april
Rússnesk tónlist er oft spennuþrungin og leikur á allt litróf tilfinninganna. Í apríl efnum við til sannkallaðrar veislu á tvennum tónleikum þar sem fluttar verða sinfóníur eftir Pjotr Tsjajkovskíj og konsertar eftir Dmitríj Sjostakovitsj. Rumon Gamba stjórnar báðum tónleikunum og einleikararnir eru í fremstu röð. Á fyrri tónleikunum er það Cédric Tiberghien sem á sviðið með Sinfóníuhljómsveitinni. Tiberghien er ungur Frakki sem vakti heimsathygli þegar snillingurinn Mstislav Rostropovitsj bauð honum að leika með sér fyrsta píanókonsert Sjostakovitsj á tónleikum. Það er einmitt sá konsert sem Tiberghien mun leika á Íslandi. Í seinni vikunni er það hin heimsfræga Natalia Gutman sem flytur fyrsta sellókonsert Sjostakovitsj. Gutman þekkti meistarann sjálf og vann með honum að flutningi ýmissa verka, svo að nær uppsprettunni sjálfri verður ekki komist. Tónleikarnir fara fram föstudaginn 24. apríl og fimmtudaginn 30. apríl. Ekki missa af frábæru tækifæri til að heyra rússneska tónlist túlkaða af mögnuðum listamönnum á heimsmælikvarða. Rússnesk veisla I | Efnisskrá